[[suggestion]]
Suður-Súdan

Bakgrunnur

Suður-Súdan varð sjálfstætt ríki árið 2011 við aðskilnað frá Súdan. Það svæði sem varð Suður-Súdan var um þriðjungur af landsvæði Súdan. Skipting landsins var gerð eftir að borgarastyrjöld hófst á milli stjórnvalda í norðurhluta landsins og frelsishreyfingar í suðurhlutanum og stóð borgarastyrjöldin yfir á árunum 1983-2005. Þetta var lengsta samfellda borgarastyrjöld í sögu Afríku og var kölluð „önnur súdanska borgarstyrjöldin“ . Hún var talin vera framhald af „fyrstu súdönsku borgarstyrjöldinni“ frá 1955-1972. Til viðbótar við átök í suðurhluta landsins voru súdönsk stjórnvöld í átökum við hópa í norðvesturhluta Darfur-svæðisins. Friðarsamningur var gerður árið 2005 milli stjórnvaldananna í Súdan og frelsishreyfingarinnar (uppreisnarhersins) í suðurhluta landsins sem kallar sig SPLM. Samkvæmt friðarsamningnum átti að verða atkvæðagreiðsla um sjálfstæði í suðurhluta landsins, þ.e. kosningar um stofnun ríkisins Suður-Súdan. Haldnar voru friðsamlegar og áreiðanlegar kosningar árið 2011 í suðurhluta landisns þar sem 99% kusu að Suður-Súdan yrði sjálfstætt ríki. Það var ljóst að andstaðan í norðurhluta landsins, sem ennþá heitir Súdan, var eitthvað sem sameinaði íbúana í suðurhluta landsins sem í dag heitir Suður-Súdan. Burtséð frá miklum einhug í suðurhluta landsins um aðskilnað frá norðurhlutanum var lítið sem bjó í haginn fyrir því að Suður-Súdan yrði sjálfstætt ríki. Íbúar í Suður-Súdan áttu sér langa sögu um innbyrðis átök og skortur var á stöðugum pólitískum stofnunum. Það fyrsta sem gerðist eftir að baráttan fyrir aðskilnaði frá norðurhluta landsins var yfirstaðin var að pólitísk átök hófust í Suður-Súdan.

Pólitísk átök  

Frelsishreyfingin var það næsta sem líktist ríkismyndun í Suður-Súdan árið 2011. Skortur á skýrum, sameiginlegum óvini til að berjast gegn, eins og í borgarastyrjöldinni í norðurhluta landsins, opnaði fyrir pólitíska baráttu innan frelsishreyfingarinnar. Þegar fyrsti forseti Suður-Súdan, Slava Kiir, sakaði varaforsetann, Riek Machar, um að reyna að ná völdum með stjórnlagarofi, klofnaði frelsishreyfingin í tvennt. Það voru þessi pólitísku átök sem hleyptu borgarastyrjöldinni af stað í Suður-Súdan 15. desember 2013. Salva Kiir varð leiðtogi ríkisstjórnarinnar sem stutt var af öðrum hluta frelsishreyfingarinnar fyrrverandi. Hinn hlutinn var andstæðingur stjórnarinnar og hann leiddi Riek Machar sem missti embætti sitt sem varaforseti. Sá hluti sem studdi stjórnina kallaði sig SPLM/A sem er sambland af nafninu á pólitíska og hernaðarlega hluta frelsishreyfingarinnar fyrrverandi. Andstæðingar stjórnarinnar voru í svokallaðri andstöðu við stjórnvöld og kölluðu sig þess vegna SPLM/A-í andstöðu (til að einfalda málið verða þessir tveir hlutar hér eftir kallaðir ríkisstjórnin og stjórnarandstaðan). Pólitísku átökin innan frelsishreyfingarinnar eiga sér líka sögulegar rætur. Riek Machar gekk úr SPLM á fyrri hluta 10. áratugar síðustu aldar og ögraði þáverandi leiðtoga, John Garang (forvera Salva Kiir). Pólitísku átökin sem blossuðu upp innan frelsishreyfingarinnar eftir sjálfstæðið (milli stjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar) voru upphafið að borgarastyrjöldinni í Suður-Súdan. Þúsundir manna höfðu verið drepnar innan fárra vikna og rúmlega 800.000 manns flúið heimili sín. Ofbeldið sem fylgdi gerði það að verkum að átökin í Suður-Súdan breyttust úr því að vera átök um pólitísk völd og fóru í meira mæli að snúast um þjóðerni, öryggi og aðgang að auðlindum.

Drifkraftur í borgarastyrjöldinni

Skýrustu átök þjóðarbrota í Suður-Súdan er á milli Dinka-ættbálksins og Nuer-ættbálksins. Dinka-ættbálkurinn er nátengdur herafla ríkisstjórnarinnar sem framdi kerfisbundið ofbeldi gegn Nuer-ættbálkinum í höfuðborginni Juba fljótlega eftir að átökin brutust út, margir óbreyttir borgarar í röðum Nuer-ættbálksins voru drepnir. Þetta leiddi til stofnunar andspyrnuhópa innan Nuer-ættbálksins. Ofbeldisfull viðbrögð vopnaðra Nuer-hópa beindust oft gegn Dinka-ættbálkinum almennt frekar en vopnuðum sveitum og voru því margir óbreyttir borgarar úr þeirra hópi einnig drepnir. Borgarastyrjöldin, sem hófst sem pólitísk átök, fór því fljótt að snúast um hvaða ættbálki íbúar tilheyrðu, fyrst og fremst á meðal Dinka-ættbálksins og Nuer-ættbálksins. Ofbeldið sem stigmagnaðist tengdist einnig sögulegum átökum á svæðinu, sem hafði ekki endilega eitthvað með þjóðerni að gera í upphafi, en lagði grunninn að þess kyns túlkun eftir á. Þjóðernislegt eðli ofbeldis er ekki nýtt af nálinni en þjóðerni hefur gegnt miklu stærra hlutverki í núverandi borgarastyrjöld en áður. Auk þess hefur þörfin fyrir efnahagslegt öryggi, möguleg græðgi, verið drifkraftur í átökunum í Suður-Súdan. Þau snúast aðallega um að vernda landsvæði og koma í veg fyrir að nautgripum sé stolið. Jonglei-svæðið hefur orðið fyrir miklum áhrifum af þessu en þar hafa um 100.000 Suður-Súdanar flúið heimili sín.

Hvíti herinn   

Almennir borgarar á meðal Nuer-ættbálksins gripu einnig til vopna og voru kallaðir „Hvíti herinn“. Margir hópar af svæðinu tilheyra hvíta hernum. Þrátt fyrir að hvíti herinn berjist í grundvallaratriðum við hlið varaforsetans fyrrverandi, Machar, hefur skilningurinn á átökunum og grundvallarhugmynd hernaðarins verið frábrugðin. Í stuttu máli má segja að hinir pólitísku og hernaðarlegu leiðtogar hafi sinn eigin tilgang varðandi pólitísk völd á meðan íbúum hefur fyrst og fremst verið umhugað um öryggi og réttlæti. Þetta hefur leitt til mikillar pólitískrar orðræðu leiðtoganna til þess að virkja íbúana til stríðs. Þetta hefur einnig orðið til þess að átökin eru ekki lengur undir stjórn leiðtoganna sem gerir það að verkum að erfiðara er að stöðva þau. Fyrir utan veikar, pólitískar stofnanir hefur Suður-Súdan heldur ekki sterk, sameiginleg þjóðareinkenni. Þetta hefur verið mikilvæg ástæða þess að pólitískir leiðtogarm sem og leiðtogar í hernum, hafa getað notað orðræðu um þjóðerni og það að tilheyra hópi til að virkja ýmsa hópa til átaka. Veik þjóðernisvitund kann að hafa stuðlað að því að borgarastyrjöldin í Suður-Súdan hófst og stigmagnaðist á grunni þjóðernishópa. 

Önnur staðbundin átök

Borgarastyrjöldinni í Suður-Súdan má lýsa á þann hátt að ríkisstjórnin og Dinka-ættbálkurinn berjist gegn stjórnarandstöðunni og Nuer-ættbálkinum, eins og lýst er hér að ofan. Slík einföldun er að mestu rétt en ástandið er flóknara en það. Þjóðarbrotin í Suður-Súdan, þar sem Dinka-ættbálkurinn og Nuer-ættbálkurinn eru fjölmennastir, samanstanda af ólíkum undirhópum. Átök og ofbeldi er einnig á milli og innan þessara hópa. Að því leyti sem átökin í Suður-Súdan snúast um þjóðerni, er það ekki bara á milli Dinka-ættbálksins og Nuer-ættbálksins þó að stóra myndin geti verið einfölduð á þann hátt. Einnig eru átök á ýmsum stigum þjóðfélagsins og tengsl hópa eru sveigjanleg. Hvatt er til ofbeldis að stórum hluta vegna þarfar fyrir öryggi annars vegar og löngunar til hefndar hins vegar og bæði tengist því að tilheyra hópi. Hóphugsunin stuðlar að því að ofbeldið beinist að almennum borgurum. Þetta er réttlætt með því að koma ábyrgð vegna athafna eins fulltrúa hópsins yfir hópinn allann. Hefnd eða gagnárás getur þess vegna beinst að hverjum sem er innan hins ,,seka" hóps.

Átökunum er ekki lokið

Fyrir utan innanlandsátök í Suður-Súdan eru átök við Súdan (nágrannaríkið í norðri) enn í gangi. Átökin á milli Súdan og Suður-Súdan snúast fyrst og fremst um olíuauðlindir og landamæri. Skiptingin á fyrrum Súdan gerði það að verkum að stærstur hluti olíuauðlindanna varð hluti af ríki Suður-Súdan. Á sama tíma liggja olíuleiðslurnar frá Suður-Súdan norður og í gegnum Súdan. Suður-Súdan er háð sölu á olíu. Þetta krefst samvinnu á milli landanna tveggja og samkomulags um tekjuskiptingu. Hin gagnkvæma „fíkn“ er eins og stendur uppspretta áframhaldandi átaka á milli landanna. Vopnaðir andspyrnuhópar í Súdan sýndu snemma stuðning sinn gagnvart hinni suður-súdönsku ríkisstjórn í átökunum í Suður-Súdan. Það sama gerði nágrannalandið Úganda. Á hinn bóginn eru teikn á lofti um að Súdan hafi látið skotfæri og vopn falla til jarðar í fallhlífum til herafla stjórnarandstöðunnar í Suður-Súdan sem súdönsk stjórnvöld neita. Átökin í Suður-Súdan hafa þess vegna líka svæðisbundin sjónarmið þar sem ólík nágrannalönd hafa sinna hagsmuna að gæta.

Human Rights Watch heldur því fram að vopnaðar hersveitir frá báðum hliðum átakanna, bæði þær sem berjast fyrir og gegn ríkisstjórninni, hafi framið grimmdarverk og e.t.v. líka stríðsglæpi. Liðsafli Sameinuðu þjóðanna í Suður-Súdan, UNMISS, telur að ástæða sé til að halda að framdir hafi verið glæpir gegn mannkyninu í borgarastríðinu í Suður-Súdan. Að auki hafa um tvær milljónir manna misst heimili sín vegna átakanna og þar af hefur einn af hverjum fjórum yfirgefið landið. Talið er að þriðjungur af 11 milljónum Suður-Súdana sé háður mataraðstoð (júní 2015).

Friðarsamningur

Leiðtogarnir Salva Kiir og Riek Machar undirrituðu friðarsamning í ágúst 2015. Samningurinn felur í sér að innleiða vopnahlé tafarlaust, koma á fót afvopnuðu svæði í kringum höfuðborgina, Juba, og setja Riek Machar aftur í embætti varaforseta. Þrátt fyrir að friðarsamningur hafi verið undirritaður hafa uppreisnarmenn, sem hafa barist við hlið Machar í borgarastríðinu, gefið merki um að þeir muni halda átökunum áfram án Machar sem leiðtoga. Það getur því orðið erfitt að koma á raunverulegum friði í Suður-Súdan. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur þrýst á aðila til að koma á þesum friðarsamningi, m.a. með hótun um „tafarlausar aðgerðir“ ef samningurinn yrði ekki undirritaður.