Angóla

Sögulegur bakgrunnur

Það má skilja átökin í Angóla út frá fortíð landsins sem portúgölsk nýlenda. Nýlendan Angóla var búin til með samningi milli Þýskalands, Portúgal og Bretlands, og var stofnuð með sameiningu svæðis sem upprunalega hafði verið nokkur stór og smá konungsríki. Portúgal hunsaði gömul landamæri og dró ný, óháð fyrri skilum milli þjóðarbrota, tungumála og sögu á svæðinu. Þrjár þjóðir bjuggu á svæðinu og eru enn ríkjandi í Angóla. Norðurhluti landsins tilheyrði Bakongo fólkinu sem hefur sterk menningarleg og tungumálaleg tengsl við íbúa Kongó. Í miðju landsins bjó Ambundu hópurinn og suðrið og austrið tilheyrði Avimbundu. Portúgalar börðu niður alla þessa hópa og stofnuðu landið Angóla.

Uppreisn gegn nýlendustjórninni

Angóla var portúgölsk nýlenda þar til árið 1975 og var, ásamt Mósambík, síðasta afríska landið til að öðlast sjálfstæði. Andstætt Englandi og Frakklandi þá neitaði hin fasíska stjórn Portúgals að fylgja kröfum SÞ um að gefa nýlendum sínum frelsi á friðsaman hátt. Ýmsar andspyrnuhreyfingar hófu þess vegna baráttu gegn Portúgölum fyrir sjálfstæði snemma á fimmta áratugnum. Portúgal dró sig samt sem áður ekki út úr Angóla fyrr en fasistastjórnin féll 1974. Í Angóla voru þá þrjár ólíkar andspyrnuhreyfingar sem allar vildu öðlast völd, þær héldu þess vegna baráttunni áfram sín á milli þegar Portúgalar voru farnir. Sósíalíska hreyfingin MPLA náði að lokum völdum í nóvember 1975, myndaði ríkisstjórn og stofnaði Alþýðulýðveldið Angóla.

Borgarastyrjöld

Valdabaráttan á milli MPLA (ríkisstjórn Angóla) og helstu andspyrnuhreyfingarinnar, UNITA, á sér stað enn þann dag í dag. Átökin hefðu trúlega ekki orðið eins blóðug og langvinn og raun ber vitni ef borgarastríðið í Angóla hefði ekki orðið hluti af kalda stríðinu. Því miður höfðu bæði Bandaríkin og Sovétríkin mikilla hagsmuna að gæta í landinu og blönduðu sér í málin þegar árið 1975 og studdu við UNITA annars vegar og MPLA hins vegar. Að auki stuðluðu stórveldin að því að Suður-Afríka kom inn og studdi við UNITA, á meðan Kúba sendi hermenn til að aðstoða MPLA. FNLA, þjóðfrelsishreyfing Angóla, var byggð upp af Bakongo fólki og hafði mikilvæga stuðningsmenn í nágrannalandinu Saír (sjá Austur-Kongó), sem gáfu angólskum uppreisnarmönnum leyfi til að hafa bækistöðvar þar. Á níunda áratugnum jókst ófriðurinn og þótt FNLA hafi á endanum viðurkennt ríkisstjórn MPLA hélt UNITA áfram að berjast, með íhaldsöm öfl Bandaríkjanna sér við hlið. Árið 1986 ákvað Ronald Reagan Bandaríkjaforseti að gefa UNITA vopnastyrk fyrir 25 milljónir Bandaríkjadala og í kjölfarið gerði UNITA árás á MPLA í suðri.

Friðaryfirlýsing og fyrsta frjálsa kosning landsins

Það var ekki fyrr en við lok kalda stríðsins 1988 að Angóla, Kúba og Suður-Afríka gerðu með sér samkomulag sem leiddi til þess að Kúba og Suður-Afríka drógu sig út. Þremur árum síðar, árið 1991, undirrituðu MPLA og UNITA friðarsamkomulag sem hafði í för með sér fyrstu frjálsu forsetakosningarnar árið 1992. Leiðtogi MPLA, José Eduardo dos Santos, var tilnefndur sigurvegari kosninganna, en flokkurinn hafði þó ekki nægt fylgi til að tryggja sér meirihluta í forsetakosningunum og því var þörf á annarri umferð. Í seinni umferðinni vann dos Santos með 49% fylgi. UNITA efaðist þó um frelsi kosninganna, ef til vill af góðri ástæðu því áður en seinni valumferðin var haldinn drap stjórnarherinn þúsundir stuðningsmanna UNITA í höfuðborginni og víðar. UNITA ákvað því enn eina ferðina að grípa til vopna og önnur borgarastyrjöld braust út. Í kjölfarið fylgdi fjöldi friðarumleitana sem UNITA sniðgekk og stríðið hélt áfram þar til Savimbi var drepinn af hersveitum ríkisstjórnarinnar í apríl 2002. Þá samþykktu deiluaðilar vopnahlé sem  heldur enn. Talið er að um 1,5 milljónir manna hafi látið lífið vegna stríðsins.

Lýðræðisríki á pappír

Ummerki um borgarastyrjöldina eru enn ljós víðast hvar í Angóla. Flestir vegir skemmdust í stríðinu ásamt járnbrautum landsins og stór landsvæði eru enn full af jarðsprengjum. Tólf árum eftir að stríðinu lauk eru angólskir flóttamenn í nágrannaríkjum um 135.000 talsins. Þrátt fyrir það blómstraði hagkerfi Angóla eftir að stríðinu lauk. UNITA hefur lagt niður vopn sín og er til í dag sem stjórnmálaflokkur. Landið er lýðræðisríki á pappír, en raunin virðist vera önnur. Í alþingiskosningum árið 2008 tryggði MPLA sér yfir 80 prósent atkvæða, en Human Rights Watch sagði kosningarnar hvorki vera frjálsar né sanngjarnar. Aðrir voru varkárari í sinni gagnrýni. Alvarlegra er kannski vald forsetans, José Eduardo dos Santos, sem var formlega aldrei valinn af fólkinu, en hefur samt setið í forsetastólnum frá árinu 1979. Dos Santos breytti stjórnarskrá landsins þannig að forseti væri ekki valinn með almennum kosningum, heldur skipaður af meirihluta alþingis, sem er í höndum MPLA. Þessi valdefling forsetans var harðlega gagnrýnd af stjórnarandstöðunni og í september 2011 héldu ungmenni stjórnarandstöðunnar mótmæli gegn forsetanum í höfuðborginni Luanda. Mótmælin voru stöðvuð af lögreglu.

Cabinda-átökin

Frá árinu 1975 hafa önnur vopnuð átök átt sér stað í Angóla, í Cabinda-innskotssvæðinu, sem berst fyrir sjálfstæði sínu. Þar berjast FLEC-skæruliðar fyrir sjálfstæði og njóta stuðnings íbúa svæðisins. Cabinda er landsvæði ríkt af olíu sem er landfræðilega aðskilið frá Angóla með lítilli landspildu frá Austur-Kongó. Yfir 60 prósent af olíu Angóla kemur þaðan og svæðið hefur þess vegna mikla efnahagslega merkingu. Cabinda-innskotssvæðið hefur af þessari ástæðu verið miðpunktur átakanna á milli stjórnarhersins og UNITA og hafa mörg alvarleg átök átt sér stað þar. Ríkisstjórn Angóla barðist gegn FLEC-skæruliðahreyfingunni árin 2002 og 2003 og tók yfir nokkrar bækistöðvar skæruliðanna. Ríkisstjórnin lýsti yfir að stríðinu væri lokið, þrátt fyrir að hún væri enn með mikinn herstyrk á svæðinu. Íbúar svæðisins styðja skæruliðana, bæði vegna þess þeir njóta góðs af olíuinnkomunni og vegna þess að þeir verða fyrir miklu áreiti frá hermönnum. Ríkisstjórnin og aðskilnaðarhóparnir í Cabinda skrifuðu undir friðarsamkomulag í ágúst 2006, seinna sama ár fóru flóttamenn að streyma til baka eftir að öryggisástand hafði batnað.