Filippseyjar

Filippseyjar eru eyríki sem samanstendur af 11 aðaleyjum og 700 minni eyjum. Landið var spænsk nýlenda þar til Bandaríkjamenn tóku yfir árið 1898, Japanir réðu yfir eyríkinu í annarri heimsstyrjöldinni og landið fékk ekki sjálfstæði fyrr en 1946. En löngu áður en Spánverjar komu, um 1400, bjuggu arabar á nokkrum syðri eyjanna, meðal annars Mindanao.

 

Mindanao er næst stærst hinna filippeysku eyja, með 16 milljón íbúa. Hvorki Spánverjum né Bandaríkjamönnum tókst að ná yfirráðum fyrir þessum svæðum, jafnvel þó meirihluti íbúanna hafi smám saman orðið fyrir kaþólskum og evrópskum áhrifum. Spánverjar kölluðu múslimana á Filippseyjum moros, hugtak sem notað var yfir spænska múslima, nafnið hefur haldist það sama í gegnum öll þessi ár.

 

Nútímasaga Filippseyja hefur einkennst af stjórn voldugra fámannsvelda þar sem stjórnað hefur verið eftir lögmálinu „survival of the fittest“ eða „sá sterkasti lifir af“. Hefð hefur verið fyrir því að bæði vald, landsvæði og peningar hafi verið á fárra höndum, á meðan stór hluti íbúa landsins býr við fátækt. Frá árinu 1965 til 1986 var Ferdinand Marcos forseti landsins, eða réttara sagt einræðisherra. Hann setti 30.000 af pólitískum andstæðingum sínum í fangelsi og tók lítið tillit til vilja eða skoðana almennings. Lýðræði hefur einnig gengið illa eftir að Marcos var steypt af stóli árið 1986. Stjórnmálamenn eru að mestu leyti frá elítu landsins og flokkar sem eru fulltrúar fyrir verkamenn og bændur ná ekki fram á sjónarsviðið. Í mörgum hlutum landsins hafa miklir eignamenn sína einkaheri sem láta opinberar reglur og lög sig engu varða.

 

Á sama tíma er fólksfjölgun landsins með því mesta sem gerist í heiminum og félagsleg neyð er mikil. Þegar á sjötta áratugnum fór að vera of þröngt á höfuðeyjunni Luzon í norðri og ríkisstjórnin hvatti fólk til að flytjast á eyjarnar lengra í suðri. Flutningsherferð ríkisstjórnarinnar var einnig tilraun til að stemma stigum við pólitískum óstöðugleika í stóru borgunum í norðri. Þar náðu kommúnistar góðri fótfestu og unnu að því að endurmóta samfélagið. Kommúníska andspyrnuhreyfingin á Filippseyjum fékk mikinn meðbyr á sjöunda og áttunda áratugnum, en er í dag einungis lítill hópur þeirra sem berjast gegn filippseyskum stjórnvöldum. Vopnuð andspyrna pólitískra múslimskra uppreisnarhópa á Suður-Filippseyjum jókst. Fólksflutningar kristinna nýbúa á sjöunda áratugnum til eyja sem moroar höfðu áður verið í meirihluta á, skapaði átök við þá sem bjuggu áður á eyjunni. Nýbúarnir komu í þúsundatali í hverri viku, þetta ýtti undir aukna þjóðernishyggju og sjálfsvitund hjá múslimskum íbúum eyjanna. Þjóðernisfrelsishreyfingin Mora (MNLF) var stofnuð í lok sjöunda áratugarins. Samtökin nutu mikils stuðnings meðal múslimskra íbúa bæði á Filippseyjum og erlendis. Þau börðust fyrir því að landshlutinn fengi sjálfstæði og stjórn yfir þeim olíu og gasauðlindum sem þar var að finna. Að auki var mikilvægur hluti átakanna einnig barátta um þær jarðir sem nýbúar höfðu komið sér fyrir á. Kristnir innflytjendur svöruðu tilbaka með því að stofna sína eigin hernaðarhópa og frá árinu 1971 var stjórnarherinn látinn taka þátt í bardögunum við MNLF, sem héldu áfram næstu 25 ár.

 

Árið 1996 var samþykkt friðarsamkomulag sem var álitið skipta sköpum í átökunum. Samkomulagið var undirritað af bæði filippeyskum stjórnvöldum og af MNLF. MNLF hét því að leggja niður vopn gegn því að komið yrði á sjálfsstjórnarhéraði í hluta Mindanao. Samkomulagið hefur mætt andstöðu bæði frá kristnum hópum og frá róttækari múslimskum hópum en MNLF, átök brutust aftur út árið 2000. Íslamska frelsishreyfing Mora (MILF) er meðal þeirra hópa sem barðist fyrir sjálfstæðu múslimsku ríki. Frá miðjum tíunda áratugnum hefur einnig Abu Sayyaf („Faðir sverðsins“) verið stofnað. Þetta eru mestu öfgaíslömsku hóparnir og standa fyrir mörgum mannránum og morðum á útlendingum. Vegna harðar gagnrýni hefur dregið úr tíðni þess, en þó eru enn átök á milli stjórnarhersins og meðlima frá uppreisnarhópnum. Talið er að Abu Sayyaf hafi tengsl við al-Qaida samtökin. Friðarsamkomulag sem var undirritað árið 2001 var brotið og endursamið árið 2003 og aftur brotið árið 2005 þegar kom til opinna átaka milli stjórnarhersins og MNLF. Abu Sayyaf er enn stöðug öryggisógn. Vorið 2007 setti ríkisstjórnin af stað varnaráætlanir til að komast yfir vandamálið, en þær hafa enn ekki sýnt teljanlegan árangur. Bandaríkin hafa í gegnum tíðina gegnt mikilvægu hlutverki í landinu og hafa verið áberandi til staðar fyrir stjórnvöld. Bandaríkjamenn hafa verið með herstöðvar á Filippseyjum undanfarin 100 ár, en drógu sig út í stuttan tíma á tíunda áratugnum. Frá 1998 var þó samvinnan endurvakin og Filippseyjar vinna með Bandaríkjunum í „stríðinu gegn hryðjuverkum“. (sjá Írak og Afganistan.)