[[suggestion]]
Bolivía
Bolivia

Helstu tölur og staðreyndir

Verg landsframleiðsla á hvern íbúa

7 234 PPP$

Aðrir áfangastaðir

Landafræði

Árið 1884 misstu Bólivar stjórn yfir strandlengju sinni til Chile og í dag er Bólivía án landamæra við haf. Í vestri einkennist landslagið fyrst og fremst af Andesfjöllunum, en þar skiptast þau í tvær keðjur og á milli þeirra er hásléttan Altiplano, þar sem meirihluti Bóliva búa. Á hásléttunni milli fjallkeðjanna má einnig finna Titicaca-vatn, en það er stærsta stöðuvatn Suður-Ameríku. Fyrir norðan og austan Andesfjöllin eru svæði sem liggja talsvert lægra og þekja um tvo þriðju af landinu. Þar er gróðursælast fyrir norðan, en landslagið breytist úr þurrlendi í suðri, yfir í steppur og verður loks að hitabeltisregnskógi í norðaustri. Fjallkeðjan Coridillera Occidental samanstendur af óvirkum eldfjöllum en í henni er hæsti tindur Bólivíu, Sajama, sem gnæfir 6542 metra yfir sjávarmáli. Veðurfar og loftslag er mjög breytilegt í Bólivíu, þar sem hæðarmunurinn er svo gífurlegur. Í vestri er kalt og þurrt en í norðri og austri er hitabeltisloftslag. Jarðeyðing er stórt vandamál í landinu, en talið er að allt að 30% landsins hafi orðið fyrir barðinu á því. Ein af höfuðástæðum jarðeyðingarinnar er skógarhögg. Vatnsgæði eru slæm vegna mikillar mengunar. Bólivía er einnig sérstaklega viðkvæm fyrir loftlagsbreytingum en þar má finna eina mestu fjölbreytni innan lífríkisins í heiminum, og þegar loftslagsbreytingar verða geta heilu vistkerfin hreinlega horfið. Aðgangur að vatni getur einnig versnað til muna þegar jöklarnir bráðna.

Earth Ecoprint

1.7 plánetunni Jörð

Ef allt mannkyn myndi neyta til jafns eins og gerist að meðaltali í Bolivía, þá þyrftum við 1.7 eintök af plánetunni Jörð.
Sjá vísir fyrir vistfræðileg áhrif.

Saga

Fyrir um það bil 3000 árum þróaðist landbúnaðarsamfélag meðfram Titicaca-vatni þar sem bændur héldu lamadýr og ræktuðu kartöflur og kínóa-fræ. Síðan hefur saga landsins einkennst af landvinningum. Í kringum 1400 varð landsvæðið hluti af Inkaveldinu, en það leið undir lok þegar Spánverjar réðust inní landið í kringum 1530. Það sem við þekkjum sem Bólivíu í dag varð hluti af Spænska heimsveldinu árið 1538. Frumbyggjarnir voru gerðir að þrælum og látnir vinna í námum. Andstaða við spænsku nýlendustjórnina óx með tímanum og árið 1825 braut Bólivía sig undan valdi Spánverjanna undir forystu Sucre hershöfðingja og frelsishetjunnar Bolívar. Sucre var gerður að forseta og landið nefnt eftir Bolívar. Síðan þá hefur ríkt mikill pólitískur óstöðugleiki í landinu, en frá árinu 1824 og fram til 1991 hafa þar verið gerð 192 valdarán. Mikil spenna er á milli vinstri og hægri afla í landinu og ein af ástæðum þeirrar spennu er hversu margar fjármálakreppur hafa skollið á Bólivíu. Herstjórnirnar hafa oft skorið mikið niður til að halda hagkerfinu gangandi, en það hefur svo aftur valdið miklu atvinnuleysi sem leitt hefur til mikillar óánægju meðal almennings.

Samfélag og stjórnmál

Forsetakosningarnar árið 2005 ullu straumhvörfum í Bólivíu og sýn þeirra á frumbyggja landsins, en þá var Evo Morales kjörinn forseti. Morales er Aymara-indíáni og fyrrverandi kókalaufabóndi. Hann var fyrsti frumbygginn til að gegna svo mikilvægri stöðu í landinu. Undir stjórn Morales og jafnaðarmannaflokks hans (MAS) hefur ríkisstjórnin fært sig talsvert meira til vinstri í stjórnmálum en áður hafði verið. Fyrir tíð Morales hafði landinu verið stjórnað í anda nýfrjálshyggju í þrjátíu ár. Enn er talsverður óróleiki í landinu, margir eru óánægðir með að ríkið hafi meira vald yfir landi og náttúruauðlindum. Bólivía er eitt af fátækustu löndum Suður-Ameríku, stór hluti fólks hefur ekki aðgang að heilsugæslu og stéttaskipting er gríðarleg. Tveir þriðju af landsmönnum lifa undir fátæktarmörkum og aðeins helmingur barna klárar grunnskólagöngu sína. Mörg börn þurfa að hjálpa til við að sjá fyrir heimilinu og í sveitum landsins er skortur á skólum.

Hagkerfi og viðskipti

Þrátt fyrir að Bólivía sé rík af náttúruauðlindum, svo sem olíu, gasi og málmum, er landið sjálft fátækt. Landið er eitt af minnst iðnvæddu löndum Suður-Ameríku og byggir efnahagurinn á útflutningi hráefna. Áður fyrr var Bólivía stærsti útflytjandi heims á tini, en framleiðsla þess hrundi á 9. áratug seinustu aldar þegar heimsmarkaðsverð á tini lækkaði. Í dag eru gas og olía stærstu útflutningsvörur landsins. Kókalauf sem ræktuð eru fyrir kókaínframleiðslu eru þó kannski stærsta uppspretta tekna landsins, en landið er næststærsti framleiðandi kókalaufa í heimi. Sú staðreynd hefur mikil áhrif á samband landsins við BNA, en Bandaríkin eru bæði mjög mikilvægur viðskiptaaðilli sem og mikilvægur veitandi þróunaraðstoðar. Bandarísk yfirvöld krefjast þess að Bólivar stöðvi kókaframleiðslu sína og til að setja aukinn þrýsting á yfirvöld hafa bandarísk stjórnvöld beitt viðskiptaþvingunum á Bóliva. Bólivar vilja hinsvegar halda í hefðir sínar og halda áfram að tyggja kókalauf einsog þeir hafa gert frá örófi alda. Sambandið milli landanna hefur versnað eftir að Morales var kjörinn forseti.

Kort

Tölfræði

Á þessari síðu er gildi fyrir landið Bolivía fyrir allar mælistikur (frá því ári sem síðast barst). Þú getur auðveldlega borið þessi gildi saman við gildi frá öðru ríki. Sjá vísir