[[suggestion]]
Írak

Írak varð til sem land í uppgjörinu eftir fyrri heimsstyrjöldina, þegar sigurvegararnir skiptu Mið-Austurlöndum á milli sín á ráðstefnu í San Remo. Landsvæðið var áður hluti af osmanska ríkinu, en varð breskt yfirráðasvæði. Íbúar þessa nýja lands voru af ólíkum uppruna: Kúrdar voru flestir í norðri, súnnímúslimar voru ráðandi í miðhluta Íraks og síjamúslimar héldu til í suðurhluta landsins. Bæði kúrdar (Sjá Kúrdistan) og síjar höfðu fengið ákveðin merki um það að þeir fengju sjálfstæði eftir San Remo viðræðurnar og voru þess vegna ekki sáttir við uppgjör stríðsins. Enn í dag eru sterkar raddir í þeim hópum sem vilja berjast fyrir sjálfstæði frá Írak.

Saddam Hussein tekur völdin í Írak

Árið 1932 lauk yfirráðum Breta og þeir drógu sig formlega út úr Írak, þrátt fyrir að hafa tryggt sér mikilvæga stöðu innan olíuiðnaðarins þar. Eftir það tók við tímabil pólitísks óstöðugleika: á árunum frá 1945 til 1958 voru 24 ólíkar stjórnir í landinu. Íraska konungdæminu sem stutt var af Bretum, var kollvarpað í byltingunni árið 1958 og komið á fót lýðveldi í Írak. Einn af þeim hópum sem tók þátt í byltingunni var sósíalíski flokkurinn Baath sem tíu árum seinna tók við völdum í valdaráni. Eftir kerfisbundið framapot og nær algjöra útrýmingu á pólitískum andstæðingum varð Saddam Hussein leiðtogi flokksins árið 1979 og þar með einnig leiðtogi Íraks. Hann skipaði vini og fjölskyldu í mikilvægar stjórnunarstöður innan ríkisins og hersins. Á stuttum tíma byggði hann upp mikla persónudýrkun á sjálfum sér: styttur og málverk af Saddam Hussein voru mjög sýnileg í írösku þjóðfélagi.

Baath flokkurinn

Baath-flokkurinn er ekki trúarhreyfing, heldur skilur mjög greinilega á milli ríkis og trúar. Þrátt fyrir þetta voru súnnímúslimum veittar ýmsar forgangsstöður í íröskum stjórnmálum vegna þess að Saddam Hussein og fylgismenn hans voru allir súnnímúslimar. Síjamúslimar, sem eru stærstur hluti íbúa landsins, fengu ekki ábyrgðarstöður í stjórn landsins og fjölda Kúrda í Norður-Írak var einnig haldið utan við stjórn andsins. Kúrdar og síjamúslimar stóðu því oft fyrir vopnuðum uppreisnum gegn stjórn Saddams.

Írak fer í stríð við nágrannalönd - Írak og Kuwait

Íran og Írak áttu í stríði á árunum frá 1980 til 1988. Landamærin héldust óbreytt, en samkvæmt vestrænum heimildum létu 400.000 manns lífið og kostnaðurinn varð gífurlegur. Í kjölfar stríðsins gerði Írak innrás í Kuwaít árið 1991. Löndin tvö höfðu lengi deilt um hvar landamærin ættu að liggja en Írak hélt því fram að það ætti kröfu í hluta af landsvæði Kúwaít. Að auki hafði Írak lánað Kuwaít peninga á meðan á stríðinu stóð og vildi fá lánið endurgreitt. Írösk stjórnvöld kröfðust þess einnig að fá skaðabætur vegna þess að Kúwaít hafði farið yfir OPEC-olíukvótana á stríðsárunum sem hafði skaðað Írak fjárhagslega. Þegar Kúwaít gekkst ekki við kröfunum gerðu Írakar árás.

Viðskiptaþvinganir og innrás í Írak

Innrásin var fordæmd af alþjóðasamfélaginu. SÞ báðu Íraka að draga sig út úr Kúwaít og þeir voru beittir viðskiptaþvingunum. Þegar Írak varð ekki við kröfunum innan þeirra tímamarka sem þeim voru gefnar var fjölþjóðaher undir stjórn Bandaríkjanna sendur á vettvang. Stríðinu lauk með tapi Íraka sem drógu sig út úr Kuwait. Írösk stjórnvöld skrifuðu undir vopnahlésyfirlýsingu sem gekk út á það að eyðileggja öll efnavopn undir eftirliti vopnaeftirlitsmanna frá SÞ. Ef eyðingin myndi ganga eins og samið hafði verið um átti að fella viðskiptabannið úr gildi.

Bandaríkin gera innrás í Írak árið 2003

Eyðing vopnanna gekk þó ekki eins og samið hafði verið um og samkomulagið á milli vopnaeftirlitsmanna SÞ og Saddams Husseins varð sífellt stirðara eftir því sem árin liðu. Unnið var gegn vopnaeftirlitsmönnunum og vinnuaðstæður þeirra voru heldur bágbornar. Þeir fundu heldur ekki það sem þeir leituðu að. Þrýstingurinn á stjórn Saddams Husseins jókst verulega eftir að al-Qaida gerði hryðjuverkaárás á BNA þann 11. september 2001. Frá 2002 litu bandarísk stjórnvöld á Írak sem hluta af „Öxulveldum hins illa“ og Írak var sakað um að vera í samstarfi við Osama bin Laden og al-Qaida (sjá Afganistan og al-Qaida). Bandaríkin héldu því fram að mikilvægt væri að koma Saddam Hussein frá völdum ef takast ætti að koma á stöðugleika og lýðræði á svæðinu. Þegar vopnaeftirlitsmennirnir voru reknir úr landi árið 2003 töldu Bandaríkjamenn að innrás væri óumflýjanleg. Ósamstaða var um málið í öryggisráði SÞ og gáfu bæði Frakkar og Rússar í skyn að þeir væru á móti innrás í Írak. Bandaríkin réðust því inn í Írak án stuðnings SÞ þann 20. mars 2003. Innrásin braut í bága við alþjóðalög þar sem Írak hafði ekki verið fyrri til að ráðast á Bandaríkin.

Saddan Hussein tekinn til fanga

Her Saddams Husseins hafði lítið í innrásarherinn að gera og strax 1. maí lýsti forseti Bandaríkjanna George W. Bush því yfir að stríðið væri unnið og við tók tímabil þar sem reynt var að koma á stöðugleika í landinu. Saddam Hussein var tekinn fastur í desember 2003 og réttarhöld yfir honum hófust í október 2005. Hann var sakaður um stórfelld brot á mannréttindum og var tekinn af lífi 30. desember 2006. Írösk bráðabirgðaríkisstjórn var kosin í janúar 2005. Súnníar hunsuðu kosningarnar sem gerði það að verkum að bæði kúrdar og síjamúslimar fengu marga fulltrúa í nýrri ríkisstjórn.

Áhugi Bandaríkjanna á olíu í Írak

Gagnrýnendur halda fram að það sé hvorki vegna hræðslu við hryðjuverkaárásir, gjöreyðingarvopn eða óska um lýðræðislega stjórn í Írak sem Bandaríkin séu þar. Þeir halda því þvert á móti fram að innrásin sé aðallega vegna þess að Bandaríkin hafi áhuga á gríðarlegum olíuauðlindum Íraka: tveir þriðju hlutar af olíulindum heims eru í Persaflóa og eru Írak og Sádí-Arabía langstærstu framleiðendurnir. Ekki hefur tekist að sanna það að Saddam Hussein hafi haft yfir gjöreyðingarvopnum að ráða eða að tengsl hafi verið á milli stjórnar hans og al-Qaida

Írak í upplausn

Þrátt fyrir að ný stjórn hafi tekið við völdum bar landið lengi einkenni glundroða og rambaði á barmi borgarastyrjaldar. Raunverulegur stöðugleiki lét bíða eftir sér og andstaðan við veru Bandaríkjamanna í landinu var mikil. Það er meðal annars vegna þess að bandarískum hersveitum tókst illa að skapa öryggi í landinu og íbúar landsins fengu ekki grundvallarþörfum sínum fullnægt. Aðgangur að vatni og rafmagni eins og var fyrir innrásina hefur ekki verið tryggður. Andstaðan jókst einnig árið 2004 eftir að upp komst um að bandarískir hermenn hafi misnotað íraska fanga í Abu Ghraib-fangelsinu fyrir utan Bagdad og að konur og börn hafi orðið fyrir árásum. Auk þess hafa gamlar deilur sem hafa legið í dvala í stjórnartíð Saddams Husseins blossa upp aftur.

Haustið 2008 gerði Íraksstjórn samning við Bandaríkin um afturköllun á bandarískum hermönnum frá Írak. Afturköllunin átti sér stað í áföngum og síðustu hermennirnir fóru frá landinu í lok árs 2011. Frá þessu tímabili hefur ofbeldi í landinu magnast upp, meðal annars vegna borgarastyrjaldarinnar í Sýrlandi.

 • Svæði við þekkjum nú sem Tyrkland, Sýrland og Írak voru lengi hluti af miklu stærri pólitísku, félagslegu og trúarlegu veldi, sem hét Ottómanveldið eða Tyrkjaveldi. Ottómanveldinu var stjórnað af Súnni-múslima Tyrkjum sem réðu ríkjum yfir Aröbum, Kúrdum og öðrum frá árinu 1299 allt að lokum seinni heimstyrjaldarinnar. Tyrkland var stofnað árið 1924, byggt á því sem eftir stóð af Ottómanveldinu. Svæði við þekkjum í dag sem Íran og Afganistan voru ekki hluti af Ottómanveldinu.

 • Fyrri heimstyrjöldin tók sinn toll á Ottómanveldinu sem þá þegar var orðið veikburða. Evrópuríki gripu tækifærið og tóku yfir stór landsvæði fyrrum Ottómanveldisins. Þegar Evrópuríkin samþykktu ný landamæri yfirráðasvæða sinna í Mið-Austurlöndum lentu Kúrdar í fjórum mismunandi löndum: Tyrklandi, Sýrlandi, Írak og Íran. Þetta varð upphafið á kúrdískri sjálfstæðisbaráttu. Kortið sýnir svæði þar sem fjölmennir hópar Kúrda búa. Það nær yfir nokkur landamæri og er oft kallað Kúrdistan.

 • Frakkland og Bretland stofnuðu nýlendur á mikilvægum svæðum í Mið-Austurlöndum. Ríkin teiknuðu upp ný landamæri og skiptu svæðinu sín á milli. Egyptaland hafði þá þegar verið fleiri áratugi undir breskri stjórn.

 • Seinni heimstyrjöldin varð til þess að Frakklandi og Bretlandi var ómögulegt að varðveita heimsveldi sín. Nokkur af núverandi ríkjum í Mið-Austurlöndum voru stofnuð eða hlutu sjálfstæði á þessu tímabili:

  - Líbanon árið 1943

  - Sýrland árið 1944

  - Jórdanía árið 1946

  - Ísrael árið 1948

  - Egyptaland árið 1952

 • Árið 1951 varð Mohammad Mossadeq fyrsti lýðræðislega kjörni leiðtogi Írans. Lýðræðisþróun landsins ógnaði vestrænum olíuhagsmunum í Íran. Árið 1953 tóku Bretland og Bandaríkin því þátt í að koma Mossadeq af stóli og gáfu svo einræðisherranun Shah Palaví, sem var hliðhollur vesturríkjum, völdin. Valdaránið árið 1953 hafði slæm áhrif á viðhorf Írana til vesturvelda og stuðlaði óbeint að íslömsku byltingunni í Íran árið 1979. Myndin sýnir stuðningsmenn Mossadeq koma saman í Teheran árið 1952. Mynd: Wikimedia Commons

 • Árið 1958 tókst Írökum það sem Írönum hafði mistekist fimm árum áður, þ.e. að losa sig við konungsveldið sem hafði verið stutt af Bretum og Bandaríkjamönnum. Írak varð nú sjálfstætt ríki. Írakar höfðu orðið fyrir miklum áhrifum af byltingu í Egyptalandi árið 1952, þar sem hugmyndafræðin var Arabísk þjóðernishyggja og and-heimsvaldastefna. Ein helsta ástæða byltingarinnar árið 1958 var að tveimur árum áður hafði Írak verið neytt til þess að styðja Bagdad-sáttmálann og breska innrás í Egyptalandi árið 1956.

 • Að undanskildu Tyrklandi reyndu Miðausturlönd að mestu að vera hlutlaus á tímum kalda stríðsins (1947-1991). Þrýstingur frá stórveldum reyndist svo mikill að í raun þurftu ríkin að velja sér hlið. Sambandið gat þó breyst með tímanum. Mörg landanna fóru frá því að styðja vesturveldi til Sovétríkjanna. Kortið sýnir hvaða hlið hin ýmsu ríki studdu árið 1970.

 • Sýrland fékk sjálfstæði frá Frakklandi árið 1944. Árið 1970 stóð Hafez al-Assad (hann situr á stól á myndinni) fyrir valdaráni í Sýrlandi með aðstoð hersins og sýrlenska Ba'ath stjórnmálaflokksins. Sonur hans, Bashar al-Assad (annar frá vinstri á myndinni), tók yfir árið 2000 og er enn forseti Sýrlands. Photo: Wikimedia Commons

 • PKK eru pólitísk og hernaðarleg samtök Kúrda, aðgerðir samtakanna eru aðallega í Tyrklandi. PKK hafa verið helstu samtök Kúrda í baráttunni gegn Tyrklandi. Hægt er að lesa meira um baráttu Kúrda hér.

 • 1) Íslömsk bylting í Íran.

  2) Sovétríkin ráðast inn í og hertaka Afganistan.

  3) Saddam Hussein verður forseti Írak, þetta leiðir til stríðs milli Íraks og Íran ári síðar.

 • Valdatíma Shah Pahlavi í Íran lauk við byltingu Íslamista árið 1979. Nýjir valdhafar, með trúarleiðtogann Ayatollah Khomeini í fararbroddi, lögðu áherslu á trúarbrögð í stjórnmálastefnu sinni. Nýtt einræðistímabil tók við, nú óháð vestrænum áhrifum. Hægt er að lesa meira um Íran hér. Myndin sýnir málverk af Khomeini á vegg í Teheran. Mynd: Kamyar Adl / Flickr.

 • Sovétríkin réðust inn í Afganistan til að reyna að bjarga einræði kommúnista í landinu. Andstaða við innrás Sovétríkjanna, þekkt sem Mujahedin, fékk mikinn alþjóðlegan stuðning, þ.m.t. frá Bandaríkjunum, Pakistan og Kína. Osama bin Laden (sjá mynd) var meðal erlendra bardagamanna sem ferðuðust til Afganistan til að leiða hið svokallaða heilaga stríð gegn kommúnisma. Þetta var upphafið á stofnun al-Qaida. Mynd: Hamid Mir/Canada Free Press

 • Ári eftir að Saddam Hussein varð forseti Íraks réðist ríkið á Íran. Um 30 lönd studdu hernaðinn, oft í formi aðstoðar við bæði ríkin samtímis. Helstu áhrifavaldar voru Sovétríkin, Bandaríkin, Frakkland og Kína. Írakar fengu meirihluta aðstoðarinnar en hluti hennar var fyrir þróun gereyðingarvopna. Stuðningur Bandaríkjanna við Írak í stríðinu hafði neikvæð áhrif á samskipti Bandaríkjanna og Íran. 

 • Í Írak-Íran stríðinu gerðu Írakar einnig árásir á Kúrda í Norður-Írak. Ofbeldið gegn Kúrdum (og öðrum minnihlutahópum í Írak), sem hefur kallast Anfal-herferðin, stóð í nokkur ár og náði hámarki árið 1988. Noregur, ásamt fleiri ríkjum og alþjóðasamtökum, hafa viðurkennt grimmdarverkin gegn Kúrdum sem þjóðarmorð. Milli 50.000 og 100.000 manns voru drepnir, meðal annars með notkun efnavopna.

 • Við innrás Íraks inn í Kúveit í ágústmánuði árið 1990 þótti Sádi-Aröbum sér ógnað. Osama bin Laden bauðst til þess að verja Sádi-Arabíu og heilögu borgirnar Mekka og Medínu með "heilögum hermönnum" sínum. En Sádi-Arabía hafnaði tilboði bin Laden og bauð í staðinn herafla Bandaríkjanna inn í landið. Þetta hafði áhrif á pólitískar skoðanir bin Laden og varð síðar til þess að al-Qaida beindi sóknarleik sínum að Bandaríkjunum. Persaflóastríðið endaði með því að alþjóðaher undir forystu Bandaríkjanna, með umboði Sameinuðu þjóðanna, hrakti Íraka aftur til Bagdad í byrjun árs 1991.

 • Eftir Persaflóastríðið samþykkti Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna viðskiptabann gegn Írak. Bandaríkin og Bretland tryggðu að viðskiptabann Sameinuðu þjóðanna var í gildi fram til ársins 2003. Á þessu tímabili voru einnig gerðar loftárásir á Írak. Viðurlög Sameinuðu þjóðanna höfðu alvarleg áhrif á líf óbreyttra borgara og voru harðlega gagnrýnd af fjölda landa. UNICEF áætlar að nokkur hundruð þúsund börn hafi látist vegna þessara viðurlaga. Myndin sýnir fastafulltrúa Íraks hjá Sameinuðu þjóðunum gagnrýna Bandaríkin og Bretland í öryggisráðinu. Mynd: UN Photo / Evan Schneider.

 • Við fall Sovétríkjanna misstu sovésk stjórnvöld í Afganistan völdin árið 1992. Við tók borgarastyrjöld þar sem ólíkir stríðsherrar kepptu sín á milli um völdin. Íslamistahópurinn Talíbanar sigruðu og réðu Afganistan frá 1996 til 2001. Afganistan var á þessu tímabili starfsstöð Osama bin Laden og al-Qaida.  Í herbúðum al-Qaida voru hermenn þjálfaðir til þess að vera framlína Talibana (hægt er að lesa meira um al-Qaeda hér). Myndin sýnir bók eftir Malala Yousafzais, stúlku sem var skotinn af talíbönum fyrir að hafa krafist skólagöngu fyrir stelpur. Hún hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 2014. Mynd: Flickr / Jabiz Rais Dana.

 • Hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september 2001 urðu upphafið á utanríkisstefnu Bandaríkjanna sem hefur verið nefnd stríð gegn hryðjuverkum (e. war on terror). Markmiðið var að uppræta hryðjuverkanet al-Qaeda, ásamt öllum þeim sem studdu samtökin. Stjórn talibana í Afganistan var fyrst á lista Bandaríkjanna yfir al-Qaeda stuðningsmenn og gerðu því Bandaríkin og Bretar innrás í landið í októbermánuði árið 2001 (hægt er að lesa meira um stríðið í Afganistan hér).

 • Írak var næsta skotmarkið í stríðinu gegn hryðjuverkum. Bandaríkin, ásamt bandamönnum þeirra, réðust inn landið, sem er ríkt af olíulindum, án samþykkis Sameinuðu þjóðanna. Bandaríkin héldu því fram að í Írak væri að finna gereyðingarvopn og að ríkisstjórnin styddi al-Qaeda, en náðu ekki að sannreyna ásakanirnar. Stjórn Saddams Husseins í Írak féll í kjölfar ólöglegrar innrásarinnar. Eftir innrásina hefur ekki tekist að koma á langvarandi friði í landinu (hægt er að lesa meira um stríðið í Írak hér). Myndin sýnir bandarískan hermann við yfirtöku Bagdad árið 2003 að hylja höfuð styttu af Saddam Hussein með bandarískum fána. Mynd: Laurent Rebours / Flickr.

 • Vorið 2011 brutust út miklar uppreisnir í nokkrum löndum arabaheimsins. Mótmælahreyfingar sem miðuðu að því að breyta stjórnkerfinu í hverju landi, oft með áherslu á mannréttindi, stóðu fyrir þeim. Fyrstu mótmælin gegn einræðisvöldum veittu almenningi í nágrannalöndum innblástur, en niðurstöður hreyfinganna urðu ólíkar. Í Sýrlandi urðu friðsöm mótmæli að lokum að upphafi ofbeldisfullrar borgarastyrjaldar (hægt er að lesa meira um arabíska vorið hér). Myndin sýnir mótmæli á Tahrir-torginu í Egyptalandi árið 2011. Mynd: Lilian Wagdy / Wikimedia Commons.

 • Sýrland á í mikilvægum samskiptum á ólíkum sviðum við fjöldamörg lönd. Því hafa bæði ríkisstjórn Assad og uppreisnarmenn hlotið virkan stuðning annarra ríkja. Assad stjórn hefur til að mynda fengið stuðning frá Rússlandi, Íran og Hezbollah samtökunum í Líbanon. Uppreisnarmenn hafa fengið stuðning frá Bandaríkjunum, Tyrklandi, Katar og Sádi Arabíu (hægt er að lesa meira um borgarastyrjöldina í Sýrlandi hér). Borgarastyrjöldin í Sýrlandi hefur styrkt samtökin IS.

 • IS, sem stendur fyrir Íslamska ríkið, er hryðjuverkahópur íslamista sem ræður stórum svæðum í Írak og Sýrlandi. Í júní árið 2014 lýstu samtökin yfir stofnun ríkis á þessu landsvæði. Ríkið er ekki viðurkennd á alþjóðavettvangi, en heldur völdum með hervaldi. Tilkomu IS, sem eru sunni múslimar, má að hluta til útskýra með mismunun sem sunni múslimar í Írak hafa orðið fyrir eftir að ríkisstjórn Saddam Hussein féll árið 2003 (hægt er að lesa meira um IS hér).