Aðdragandi

Árið 2011 einkenndist af mótmælum, átökum og miklum sviptingum í norðurhluta Afríku og Miðausturlöndum. Mótmælin hófust í Túnis, en breiddust út til Egyptalands, Alsírs, Líbýu, Marokkó, Sýrlands, Jemens, Bareins og fleiri landa.

Átökin má rekja til óska um aukið lýðræði, mannréttindi og lífskjör í löndum sem hafa einkennst af kúgun. Ástæður uppreisnanna eru breytilegar frá einu landi til annars, bæði vegna sögulegra þátta og vegna samfélagsaðstæðna og stjórnarfars.

Túnis

Arabíska vorið á rætur að rekja til persónulegs harmleiks sem átti sér stað 17. desember 2010 í Túnis. Ungur grænmetissali, Mohammed Bouazizi, brenndi sjálfan sig til dauða til að mótmæla stjórnvöldum, samfélagsþróuninni og eigin lífskjörum. Margir Túnismenn áttu auðvelt með að setja sig í spor Bouazizis og könnuðust við ástandið af eigin raun. Þetta varð þannig kveikjan að uppreisn sem breiddist út frá smábænum Sidi Bouzid til fleiri landshluta, m.a. höfuðborgarinnar Túnis. Mörg hundruð manna týndu lífi í átökunum sem á eftir fylgdu.

Uppreisnin, sem síðar hefur verið kölluð Jasmínbyltingin, átti sér efnahagslegar og félagslegar orsakir. Útbreitt atvinnuleysi, einkum meðal ungs fólks, hækkun matvælaverðs og skortur á virðingu fyrir grundvallarmannréttindum voru þar á meðal. Uppreisnarmenn kröfðust lýðræðis og að ríkisstjórn landsins viki.

Forseti Túnis, Zine el-Abadine Ben Ali, hafði setið á valdastóli síðan 1987. Stjórnarandstaða var leyfð, en stjórn hans var samt sem áður uppvís að miklum einræðistilburðum og spillingu.

Til að byrja með reyndi forsetinn að bregðast við með því að lýsa yfir neyðarástandi, en hann og fjölskylda hans voru síðan hrakin frá Túnis í janúar 2011. Þau fóru í útlegð í Sádi-Arabíu. Forsetinn fyrverrandi var dreginn fyrir dóm og sakfelldur í réttarhöldum 2011 (þrátt fyrir að vera ekki í landinu) og dæmdur í 35 ára fangelsi fyrir þjófnað á ríkiseigum.

Forsætisráðherrann Mohammed Ghannouchi kom bráðabirgðastjórn á laggirnar með mörgum ráðherrum fyrri stjórnar. Eftir meiri mótmæli og kröfur lýðræðishreyfingarinnar um raunverulegar breytingar, var hann knúinn til afsagnar. Forseti þingsins útnefndi þá eftirmann hans sem skyldi leiða nýja bráðabirgðastjórn fram að kosningum í október 2011.

Kosningarnar fóru vel fram og þátttaka var yfir 90%. Hið nýja þjóðkjörna þing skyldi innan árs móta og samþykkja nýja stjórnarskrá, sem skyldi leiðbeina um val á forseta og þingi. Í nóvember 2011 kaus þingið mannréttindabaráttumanninn Monchef Marzouki sem forseta bráðabirgðastjórnar til 2013.

Túnisíska uppreisnin varð að veruleika með aðstoð samfélagsmiðla. Facebook, Twitter og YouTube voru notuð til þess að miðla upplýsingum og virkja ungt fólk og millistéttina. Sjónvarpsstöðin Al-Jazeera gegndi einnig mikilvægu hlutverki í að miðla upplýsingum um þróunina.

Egyptaland

Í Egyptalandi hófst uppreisnin 25. janúar 2011, þegar þúsundir mótmælenda gengu um götur Kaíró til þess að mótmæla stjórn Hosni Mubarak. Þá hafði hann setið við völd allt frá 1981. Þessi dagur var síðar kallaður „dagur reiðinnar“. Mótmælendur gengu fylktu liði að Tahrír-torgi og komu þar upp mótmælabúðum. Með hliðsjón af uppreisninni í Túnis var efnt til götumótmæla í janúar og febrúar.

Mótmælin spruttu upp vegna lögregluofbeldis, neyðarástandsins í landinu, misheppnaðra laga, atvinnuleysis, krafna um hækkun lágmarkslauna, skort á húsnæði, hækkandi matvælaverðs, spillingar, skorts á tjáningarfrelsi og lakra lífskjara. Meginmarkmið uppreisnarinnar var að steypa stjórn Hosni Mubarak af stóli. Þrátt fyrir að mótmælin hafi að mestu farið friðsamlega fram, kom til átaka milli öryggissveita og mótmælenda og a.m.k. 846 manns voru drepnir og 6000 slösuðust fyrstu 18 daga mótmælanna.

Viku eftir dag reiðinnar söfnuðust 250 þúsund mótmælendur saman á Tahrír torgi. Líkt og Ben Ali í Túnis, kom Mubarak á breytingum í því skyni að friða mótmælendur, leysti upp stjórnina og lofaði að bjóða sig ekki fram á ný. Þessar aðgerðir nægðu mótmælendum ekki. Í febrúar 2011 var Mubarak knúinn til afsagnar og að afsala völdum til hersins. Mubarak flúði og fór í útlegð með fjölskyldu sinni. Herstjórnin útnefndi nýjan forsætisráðherra til að sitja tímabundið og skipaði nefnd til að undirbúa lýðræðislegar kosningar.

2011 - 2012 voru kosningar til þings og forsetakosningar. Íslamistaflokkar fengu meirihluta á þinginu, stærstur flokka var Freedom and Justice Party (FJP) sem er flokkur Bræðralags Múslima. Forsetaframbjóðandi þeirra, Mohammed Morsi, vann forsetakosningarnar í júní 2012. Frumvarp þingsins til nýrrar stjórnarskrár var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu í desember 2012, en mætti mikilli mótstöðu hinnar frjálslyndu stjórnarandstöðu, trúleysingja, kristinna og hópa kvenna sem töldu frumvarpið engan veginn tryggja tjáningarfrelsi og réttindi kvenna.

Áætlað var að halda þingkosningar vorið 2013, en þeim var frestað. Ástæða frestunarinnar var mögulegt misræmi milli kosningalaga og stjórnarskrárinnar, kosningalögin þurftu því að bíða álits og breytinga hæstaréttar.

Í júní 2013 skipaði Morsi forseti bandamenn úr röðum íslamista sem leiðtoga í 13 af 27 héruðum landsins. Umdeildust þeirra allra var skipun fyrrum meðlima íslamskra hryðjuverkasamtaka sem tengdust fjöldamorðum á ferðamönnum í Luxor 1997. Þessum gjörningi var harðlega mótmælt og í júlí kom herinn Morsi forseta frá völdum í kjölfar fjölmennra mótmæla. Stuðningsmenn Morsi úr Bræðralagi Múslima höfnuðu áætlunum nýs bráðabirgðaforseta, Adly Masnour, um nýjar kosningar.

Í janúar 2014 fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um nýja stjórnarskrá sem beðið hafði afgreiðslu frá því að íslamistastjórninni var steypt af stóli í júlí 2013. Nýja stjórnarskráin bannar stjórnmálaflokka sem byggja á trúarbrögðum.

Í Egyptalandi gegndu samfélagsmiðlar líka stóru hlutverki. Mótmælendur notuðu miðla á borð við Facebook og Twitter til þess að samræma aðgerðir sínar og miðla upplýsingum um mótmælin. Notkun samfélagsmiðla varð einnig til þess að heimspressan gat fylgst með í beinni, þannig að umfjöllun um uppreisnina var mikil.

Alsír og Marokkó

Í Alsír og Marokkó fóru fram svipuð mótmæli og í Túnis og Egyptalandi. Mótmælin hófust í janúar og náðu hámarki í febrúar. Þau voru ekki eins umfangsmikil og í grannríkjunum, m.a. vegna þess að herinn og uppreisnarlögregla hélt tryggð við stjórnvöld í stað þess að slást í lið með mótmælendum.

Mótmælin í Marokkó og Alsír leiddu ekki til stjórnarskipta, en voru þó undanfari pólitíkskra breytinga. Í Alsír var neyðarástandið, sem gilt hafði frá 1992, afnumin. Í Marokkó lofuðu yfirvöld að draga úr völdum konungs. Þjóðaratkvæðagreiðsla var haldin í Marokkó í lok júní 2011, þar sem breytingatillögur við stjórnarskrána voru samþykktar.

Líbýa

Eftir uppreisnir almennings í nágrannalöndum var röðin komin að Líbýu 16.febrúar 2011. Uppreisnin hófst í austurhluta landsins, af mestum krafti í næststærstu borg landsins, Benghazi, og breiddi þaðan úr sér til annarra landshluta, þ.m.t. höfuðborgarinnar Tripoli. Líkt og í nágrannalöndunum kröfðust mótmælendur bættra lífskjara og aukins frelsis og lýstu vanþóknun sinni á einræðisstjórninni. Muammar Gaddafi, sem stjórnað hafði landinu frá 1969, tók á mótmælendum með harðri hendi.

Daginn eftir fyrstu mótmælin var lokað á internetið í landinu. Þetta hindraði notkun samfélagsmiðla, sem höfðu gegnt lykilhlutverki í skipulagningu mótmælanna. Gaddafi og fjölskylda hans gerðu fólki ljóst að afsögn væri ekki á dagskrá og fullyrtu að Ísrael og vestrænir fjölmiðlar stæðu að baki óeirðunum í landinu.

Stjórn Gaddafis beitti hernum til höfuðs mótmælendum og óbreyttum borgurum, bæði með loftárásum og með ofbeldi á jörðu niðri. Átökin þróuðust í borgarastyrjöld þegar mótmælendur hófu að skipuleggja vopnaðar varnir gegn árásum hermanna stjórnarinnar. Liðsforingjar og fleiri liðsmenn hersins gengu nú til liðs við mótmælendur.

Bráðabirgðastjórn kom saman 26.febrúar. Frá marsmánuði viðurkenndi fjöldi ríkja hana sem lögmæta fulltrúa líbýsku þjóðarinnar.

Mánuði eftir að uppreisnin í Líbýu hófst samþykkti Öryggisráð SÞ ályktun 1973, sem heimilaði flugbann í lofthelgi Líbýu. Ályktunin gaf heimild fyrir notkun „allra nauðsynlegra leiða“ og þar með var opnað fyrir beitingu hervalds. Rökin fyrir hernaðarlegri íhlutun voru að vernda óbreytta borgara frá árásum líbýska stjórnarhersins.

Undir forystu Bandaríkjamanna samanstóð herliðið sem greip í taumana í Líbýu til að byrja með af Frökkum, Ítölum, Kanadamönnum, Bretum og Bandaríkjamönnum. Fleiri ríki, m.a. Danmörk, Noregur og Svíþjóð, bættust í hópinn síðar. Í mars 2011 tók NATO yfir eftirfylgni með flugbanni yfir Líbýu. Alþjóðaherliðið studdi við aðgerðir líbýskra uppreisnarmanna með loftárásum.

Borgarastyrjöldin stóð yfir í u.þ.b. hálft ár, með miklum átökum um helstu borgir. Uppreisnarsveitir yfirtóku síðustu borgina sem laut stjórn Gaddafis, Sirte, 20.október 2011. Gaddafi var drepinn í árásinni og líbýsku uppreisninni var formlega lýst lokinni þann 23. október.

Átökin höfðu mikinn fórnarkostnað í för með sér fyrir báða deilendur og mikla eyðileggingu verðmæta. Alþjóðaherliðið hefur sætt gagnrýni fyrir að hafa gegnt of veigamiklu hlutverki í borgarastyrjöldinni og falli Gaddafis.

Eftir tímabil með bráðabirgðastjórn voru haldnar þingkosningar í júní 2012. Þetta voru fyrstu frjálsu kosningar í landinu í meira en sextíu ár. Hið nýja þjóðþing á að undirbúa nýja stjórnarskrá og starfa til bráðabirgða fram að nýjum kosningum 2013.

Sýrland

Uppreisnin í Sýrlandi hófst með kröfugöngu í höfuðborginni Damaskus í mars 2011, þar sem krafist var frelsis fyrir pólitíska fanga. Reynt var að stöðva mótmælin og margir voru handteknir. Miðpunktur uppreisnarinnar var borgin Deraa í suðurhluta landsins, þar sem kom til harðvítugra átaka milli baráttumanna og öryggissveita.

Ríkisstjórnin freistaði þess að lægja öldurnar með því að sleppa pólitískum föngum úr haldi og Bashar al-Assad forseti leysti stjórn sína frá völdum. Í apríl afnam hann neyðarástandið sem verið hafði í gildi síðan 1963, en þetta töldu mótmælendur ekki mjög þýðingarmikla aðgerð til þess að mæta kröfum þeirra um lýðræði.

Andstaðan við stjórnina fór vaxandi og hið sama má segja um valdbeitingu stjórnarinnar. Sýrlenskar öryggissveitir hafa drepið og sært fjölda mótmælenda. Samkvæmt SÞ hafa yfir 5000 manns verið drepnir í átökunum, á meðan þúsundir hafa flúið til Tyrklands og Líbanon. Mörg þúsund manns hefur einnig verið stungið í fangelsi. Þess skal þó getið að erfitt er fyrir SÞ að gefa út áreiðanlegar tölur um tölu látinna, vegna ringulreiðarinnar sem ríkir og vegna þess að tölurnar fara mikið til eftir því hver er spurður.

Í ágúst var Sýrlenska þjóðarráðið stofnað, með aðsetur í Istanbúl í Tyrklandi til að byrja með. Þjóðarráðið er andspyrnuhreyfing sem stefnir á að skipta út stjórn Assads fyrir lýðræðislega stjórn með umboð frá frjálsum þingkosningum. Fyrrverandi hermenn úr sýrlenska hernum hafa auk þess stofnað „Hinn frjálsa sýrlenska her“ og standa í vopnuðum átökum við stjórnvöld. Þar fyrir utan eru fleiri andspyrnuhreyfingar í bæði Sýrlandi og Líbanon og því varla hægt að tala um samtaka andstöðuhreyfingu. En þetta endurspeglar fyrst og fremst að sýrlenska þjóðin er ólíkari innbyrðis heldur en t.d. Egyptar. Í Sýrlandi búa margir minnihlutahópar, á borð við kúrda, kristna og drúsa. Margir þessara hópa hafa búið við ágætan stöðugleika á stjórnartíma Assads, en hafa áhyggjur af framvindu mála ef einhver annar tekur við valdataumunum í landinu.

Ofbeldi gegn mótmælendum hefur verið fordæmt af mörgum ríkjum. Átökin í Sýrlandi urðu alþjóðleg í nóvember 2013, þegar Sýrlendingum var vísað úr Arababandalaginu. Meginástæðan var sú að sýrlenska stjórnin hafði ekki hrint friðaráætlun í framkvæmd, sem sett hafði verið saman af Arababandalaginu og Assad forseti hafði samþykkt. Öryggisráð SÞ hefur samþykkt tvær ályktanir um Sýrland sl. tvö ár. Sú fyrri var samþykkt einróma 27. september 2013 og kveður á um eyðingu kjarnavopna Sýrlands og lýsir stuðningi við bráðabirgðastjórn ríkisins. Sú síðari, frá 22. febrúar 2014, kveður á um að allir málsaðilar, sérstaklega sýrlensk stjórnvöld, heimili aðgang hjálparstofnana að landinu.

Jemen

27. janúar 2011 komu 16 þúsund mótmælendur saman á götum höfuðborgar Jemen, Sanaa, til þess að krefjast afsagnar forsetans Ali Abdullah Saleh. Saleh tilkynnti að hann ætlaði ekki að bjóða sig fram til endurkjörs 2013 og að hann hefði ekki í hyggju að láta völdin í hendur syni sínum eins og margir höfðu óttast. Mótmælin héldu samt sem áður áfram og þegar þau höfðu staðið yfir í mánuð hófu öryggissveitir skothríð á mótmælendur í Sanaa og drápu meira en 40 manns. Saleh forseti lýsti yfir neyðarástandi í landinu.

Eftir þetta fór stuðningur við Saleh dvínandi, einnig úr hans eigin röðum. Eftir þrýsting frá pólitískum bandamönnum og vegna vaxandi fjölda mótmælenda, samþykkti Saleh samkomulag þess efnis að hann skyldi láta völd í hendur næstráðanda sínum innan 30 daga. Í maí 2011 tilkynnti hann hins vegar að hann neitaði að víkja.

Sadiq Al-Ahmar, yfirmaður einna stærstu ættbálkasamtakanna, hashida, lýsti þá yfir stuðningi sínum við stjórnarandstöðuna. Í lok maí og byrjun júní, kom til átaka milli hashida, uppgjafahermanna, annarra uppreisnarhópa og jemenska hersins. Saleh særðist í sprengjuárás á forsetahöllina í júní.

Í nóvember 2011 samþykkti Saleh forseti að láta varamanni sínum, Abdullah Mansour Hadi, eftir völdin, og samsteypustjórn var mynduð. Saleh yfirgaf landið og þingið veitti honum fulla friðhelgi, þrátt fyrir götumótmæli þúsunda.

Einn af aðalskipuleggjendum uppreisnar almennings í Jemen, Tawakkul Karman, fékk friðarverðlaun Nóbels fyrir sína aðkomu að málum árið 2011.

Barein

14. febrúar 2011 safnaðist mannfjöldi saman í höfuðborg Barein, Manama, til þess að mótmæla spillingu og atvinnuleysi og til þess að lýsa vanþóknun sinni á konungsveldinu þar í landi. Eitt af höfuðmarkmiðum mótmælenda var að ná fram auknu stjórnmálafrelsi og auknum áhrifum til handa hinum fjölmennu sjíamúslimum, sem voru langþreyttir á að lúta stjórn súnnímúslimska minnihlutans.

Mótmælendur söfnuðust saman við Pearl Roundabout og það hringtorg varð, rétt eins og Tahrír torg í Kaíró, einkennandi samkomustaður mótmælenda. Stjórnvöld brugðust við mótmælunum af mikilli hörku og stjórnarherinn hóf skothríð gegn óvopnuðum mótmælendum við Pearl Roundabout þann 18.febrúar.

15. mars 2011 lýstu stjórnvöld yfir neyðarástandi eftir nokkurra vikna mótmæli. Á meðan neyðarástand ríkti, til júní sama ár, voru þúsundir mótmælenda, mannréttindabaráttumanna og blaðamanna handteknir. Margir voru leiddir fyrir rétt í nýstofnuðum herdómstólum. Einnig hafa borist tilkynningar um sjíamúslima og námsmenn sem hafa misst vinnuna vegna mótmælanna. Mótmælin í Barein héldu áfram út árið 2012 og nokkrum sinnum kom til ofbeldisfullra átaka milli mótmælenda og lögreglu. Lögregluyfirvöld í Barein hafa reynt að stöðva mótmælin með því að banna mótmæli og handtaka skipuleggjendur mótmæla gegn stjórnvöldum landsins, en mótmælin héldu þó áfram 2013.

Önnur ríki

Í Líbanon, Jórdaníu, Sádi Arabíu, Íran, Írak, Óman og Súdan hefur einnig orðið vart við mótmæli, sem fylgt hafa svipuðu mynstri. Undir áhrifum nágrannaríkja á svæðinu hefur fólk krafist aukins lýðræðis og virðingar fyrir mannréttindum ásamt bættum lífskjörum.